Rokkland vikunnar fjallar um Brian Wilson leiðtoga Kaliforníu-hljómsveitarinnar Beach Boys og meistaraverk hans og sveitarinnar, plötuna Pet Sounds, en Brian Wilson féll frá á dögunum.
Brian Wilson er einn af stærstu meisturum popp og rokksögunnar. Hann er .t.d. maðurinn sem Paul McCartney segir að sé séní, og Gunni Þórðar segir það líka. Paul hefur sagt að Brian Wilson hafi haft áhrif á sig bæði sem lagasmið og bassaleikara.
Áhrif Pet Sounds plötunnar sem er ellefta breiðskífa Beach Boys leyna sér ekki í rokksögunni og poppfræðingar segja að það megi greina þau t.d. hjá sveitum og listamönnum eins og Fleet foxes, Of Montreal, Neutral Milk Hotel, Apples in Stereo, R.E.M. meira að segja My Bloody Valentine, Animal Collective, Radiohead og Bítlunum. Allt eru þetta lærisveinar Brians Wilson, eins og Gunni Þórðar sem er gestur þáttarins, en hann var lykilmaður í vinsælustu hljómsveit Íslands (Hljómum) þegar Beach Boys kepptust um hylli æskunnar í heiminum ásamt Bítlunum.
Brian Wilson segir líka sjálfur frá í þættinum. Hann er á þeirri sköðun eins og Gunni Þórðar og flestir, að Pet Sounds sé besta plata Beach Boys.
Þátturinn var áður á dagskrá í september 2016.