Á dögunum var nýjasta heimildarmynd Davids Attenborough – Hafið – frumsýnd á Íslandi og viðbrögðin hafa verið sterk og jákvæð. Að því tilefni ætla framleiðendur myndarinnar og hópur íslenskra félagssamtaka, í samvinnu við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og Háskólann í Reykjavík, að halda fund um hafvernd á Íslandi á mánudaginn. Hér rétt á eftir fáum við til okkar Katrínu Oddsdóttur og Andrés Inga Jónsson, tvo af skipuleggjendum fundarins, til að segja okkur meira.
Hlustendur í höfuðborginni hafa líklega tekið eftir því að sumarblóm eru byrjuð að birtast hér og þar í borgarlandinu. Þessi sumarblóm – sem og allmörg tré, runnar og annar gróður – eru langflest ræktuð í Ræktunarstöð Reykjavíkurborgar í Fossvogi. Við heimsóttum ræktunarstöðina í vikunni og fengum að heyra hvernig gengur á þessum miklu annatímum hjá stöðinni við byrjun sumars.
Og í lok þáttar setjumst við niður með félögum í Bjórmenningafélagi Íslands.