Samfélagið sendir út frá alþjóðlegu Mývatnsráðstefnunni - Mývatn Conference 2024 - sem haldin er í félagsheimilinu Skjólbrekku í Mývatnssveit. Lífríki Mývatns er einstakt og hefur verið rannsakað í þaula í hálfa öld og kannski má segja að þessi ráðstefna sé uppskeruhátíð. Hér er fjöldi vísindamanna saman kominn frá ýmsum löndum, Íslandi, Bretlandi, Finnlandi og eflaust fleirum - og í erindunum er farið vítt og breitt. Hornsíli koma meðal annars við sögu, fuglarnir, kúluskíturinn og að sjálfsögðu mýið. Við byrjum þáttinn á að ræða við Bjarna Kristófer Kristjánsson, prófessor við Háskólann á Hólum og Guðna Guðbergsson, sviðsstjóra ferskvatns- og eldissviðs á Hafró.
Næst fáum við pistil frá Páli Líndal umhverfissálfræðingi, sem ætlar að fjalla um loftslagskvíða.
Í lok þáttar færum við okkur svo inn á svið hugvísindanna, án þess að skilja náttúruvísindin alveg eftir. Við fáum til okkar Auði Aðalsteinsdóttur, forstöðumann Rannsóknarseturs Háskóla Íslands í Þingeyjarsveit, og Sigurlínu Tryggvadóttur, verkefnastjóra hjá náttúruhugvísindasetrinu Huldu, til að spjalla um náttúru- og umhverfishugvísindi.
Tónlist úr þættinum:
ARLO PARKS & PHOEBE BRIDGERS - Pegasus.
Pálmi Gunnarsson - Á áfangastað.
Dina Ögon - Oas.