Myndlistarkonan Anna Rún Tryggvadóttir hefur í verkum sínum síðustu ár beint sjónum að umhverfi okkar, ekki síst náttúrulegum ferlum og kerfum, sem oft eru lítt sýnileg í mannmiðjuðum heimi. Segulkraftar Jarðar áttu hug hennar allan um langt skeið og hún segist hafa djúpa þörf fyrir að draga fram tengsl og tengslarof okkar við náttúruna. En nýlega hefur sú þörf snúist að mennskum veruleika, missýnilegum, samfélagslegum kerfum sem manneskjur hafa byggt upp og eru undirstöður lagalegs trausts, siðferðis og menningar, kerfum sem nú eiga undir högg að sækja. Við heimsækjum Önnu Rún á vinnustofu hennar á Granda í Víðsjá dagsins.