Af einhverjum ástæðum hefur Búðakirkja orðið gríðarvinsæll áfangastaður erlendra ferðamanna undanfarin ár. Kirkjan er ein af mest mynduðu kirkjum á Íslandi og ferðast fólk oft langar leiðir til þess að gefa sig saman í henni. Við kynnum okkur málið nánar í þætti dagsins og skoðum sömuleiðis sögu kirkjunnar en í henni kemur fyrir sterk kvenpersóna, Steinunn Sveinsdóttir, sem fer sínar eigin leiðir og sendir kirkjuyfirvöldum 19. aldar fingurinn með einum mjög svo táknrænum dyrahring.
Sinfónía og hip hop dans mætast í fyrsta sinn á Íslandi í Eldborgarsal Hörpu þann 14. júní þegar hljómsveitin Geneva Camerata og krömpdansarar sameinast í einu meistaraverki tónlistarsögunnar, fimmtu sinfóníu Dmitris Shostakovítsj. Brynja Pétursdóttir danshöfundur og Þorbjörg Daphne Hall lektor litu við í hljóðstofu og segja okkur betur frá þessum merkilega viðburði.
Viðmælendur: Dagbjört Dúna Rúnarsdóttir, kirkjuvörður Búðakirkju, Brynja Pétursdóttir, danshöfundur, Þorbjörg Daphne Hall, lektor.
Umsjón: Anna Gyða Sigurgísladóttir