Listen

Description

Ingi Garðar Erlendsson básúnuleikari, tónskáld, kennari og Reykvíkingur ársins, brennur fyrir tónlistarkennslu. Sjálfum var honum rétt básúna í tónlistarskóla Keflavíkur þegar hann var tíu ára, hljóðfæri sem hefur fylgt honum síðan. Hann lærði kennslu, tónsmíðar og hljóðfræði í Reykjavík og Den Haag, og hljóðfæraviðgerðir í Wales. Ingi Garðar stofnaði ásamt félögum sínum Slátur, samtök listrænt ágengra tónsmiða umhverfis Reykjavík, og hefur alla tíð verið hluti af hinni tilraunakenndu jaðarsenu þó hann hafi komið mjög víða við í íslensku tónlistarlífi, bæði sem höfundur og útsetjari. Nýverið hlaut hann íslensku menntaverðlaunin, fyrir afar árangursríkt starf með skólahljómsveit Vesturbæjar og Miðbæjar, en sem stjórnandi hljómsveitarinnar hefur hann komið nemendum sínum í allskyns ólík verkefni tengd hljómsveitum og leikhúsum. Í Víðsjá dagsins segir Ingi Garðar frá sinni eigin leið í tónlistinni og óbifandi trú á skapandi mætti og samfélagslegu afli hennar.