Rúrí kom með skelli inn í íslenskt listalíf á Listahátíð árið 1974 þegar hún rústaði gylltri Bensbifreið með sleggju. Með gjörningnum vildi hún vekja fólk til umhugsunar um efnishyggjusamfélagið og hið eilífa lífsgæðakapphlaup. Hún er algjör frumkvöðull á sviði gjörningalistar hér á landi, og þó víðar væri leitað, en hefur alla tíð unnið sín verk í ólíka miðla þar sem hugmyndin er ávallt grunnforsendan. Að hennar mati dýpkar það listina að hún hafi hugmyndafræðilegt inntak.
Rúrí er gestur Víðsjár í dag þar sem hún ræðir ferilinn, inntak verka sinna, fossa, förur og regnboga, fasisma, einelti og ranglæti svo sitthvað sé nefnt. Og auðvitað verkefnin framundan en Rúrí sýnir um þessar mundir í SIND galleríi og undirbýr sýningar í Vilnius og Sao Paolo.