Við leggjum land undir fót í þætti dagsins og rifjum upp heimsókn á Safnasafnið á Svalbarðseyri. Þetta stórmerkilega safn fagnar í ár 30 ára afmæli og af því tilefni hefur verið efnt til sýningar úr safnkosti þess í Reykjavík. Sýningin, Sending frá Svalbarðseyri, opnaði í Nýlistasafninu þann 7. júní og stendur fram yfir verslunarmannahelgi, en þar má sjá verk vel á þriðja tugs listamanna sem Safnasafnið hefur hlúð að síðustu áratugi. Safnasafnið á Svalbarðseyri er höfuðsafn myndlistar sjálflærðra listamanna, myndlistar sem oft er kölluð alþýðulist eða utangarðslist. Það var stofnað árið 1995, af hjónunum Níelsi Hafstein, myndlistarmanni og Magnhildi Sigurðardóttur, geðhjúkrunarfræðingi, sem unnið hafa ótrúlegt starf við að byggja safnið upp og varðveita um leið menningararf sem hefði annars glatast. Halla Harðardóttir brunaði norður í lok síðasta sumars og ræddi við þau Níels og Magnhildi um allt milli himins og jarðar, þar á meðal upphaf safnsins, söfnunaráráttu, skilgreiningar á hugtökum, tengsl alþýðulistar og nútímalistar, blóm og dúkkur og margt, margt fleira.