Heiðrún Mjöll Jóhannesdóttir er viðmælandi Matmanna í þessum sjöunda þætti okkar. Hún er faglærður framreiðslumaður og/eða þjónn eins og svo oft er sagt. Hún hefur lokið WSET 3 (Wine & Spirit Education Trust) og hefur margra ára reynslu í veitingageiranum. Í dag rekur hún, ásamt vinkonu sinni Brynhildi, fyrirtækið Vínvísar (vinvisar.is) þar sem þær mæta með vínsmökkun til fólks og fræða þátttakendur um vín á sama tíma og smakkað er. Heiðrún er einnig framkvæmdarstjóri Port 9 bar í miðbæ Reykjavíkur sem staðsettur er við Veghúsastíg 9. Hún Heiðrún bjó um tíma í Nicaragua þar sem hún lærði að vinna með romm sem framleitt er þar og þykir ótrúlega gott á heimsvísu. Hjá Heiðrúnu fræðumst við heilmikið um vín og vínframleiðslu, en hvaða vín ætli parist best með pylsum?