Laufey og Alfa settust niður með Unni Valborgu Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóra Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Unnur er uppalin á Hvammstanga og flutti aftur þangað eftir um 30 ár í höfuðborginni og býr þar nú ásamt fjölskyldu sinni. Í skemmtilegu kaffispjalli voru mörg málefni landsbyggðanna rædd. Mikilvægi samstöðu og ímyndar sveitarfélaga, virði tímans, mikilvægi innviða og uppbyggingar, sóknaráætlanir landshluta og margt fleira.
„Það eru í rauninni hérna allir innviðir sem skipta fólk mestu máli. Það fann ég þegar ég flutti aftur heim. Það er betra aðgengi að leikskóla og í rauninni fæ ég líka betri læknisþjónustu. Það er styttra í allt og það er allt miklu auðveldara... Ímynd sveitarfélaga og byggðarlaga skiptir miklu máli. Þú vilt ekki flytja í sveitarfélag þar sem allt er, allavega út á við, í kalda koli. Þess vegna skiptir svo miklu máli að við séum að tala svæðin okkar upp en ekki niður.“