Laufey og Alfa settust niður með Berglindi Kristinsdóttur framkvæmdastjóra Heklunnar. Þær spjölluðu saman um lífið á Suðurnesjunum, jarðskjálfta og eldgos, áskoranir í atvinnumálum og margt fleira. Íbúar á Suðurnesjum eru um 28 þúsund og aðstæðurnar sem þessir íbúar standa frami fyrir núna eru hvorki einfaldar né auðveldar. Þar hefur verið mikil fjölgun íbúa og hátt hlutfall íbúa af erlendu bergi brotnu, miklar sveiflur í atvinnulífinu og mjög hátt atvinnuleysi, jarðskjálftar og svo núna síðast eldgos.
"Við ætlum að fara af stað með verkefni sem gengur út á að kanna og kortleggja íbúana sem búa á okkar svæði. Það var einu sinni orðað við Suðurnesin að hérna væri lágt menntunarstig, það átti kannski einhvern tíman við en það á ekki við lengur. Við höfum líka grun um að þessir nýju íbúar okkar sem flutt hafa frá öðrum löndum lumi á einhverju dásamlegu. Við höfum bara ekki spurt þau að því, þannig að við ætlum að gera það."
Berglind notaði svo tækifærið og bauð alla velkomna á Reykjanesið í sumar!