Listen

Description

Laufey og Alfa settust niður með Kára Viðarssyni, eiganda og listræns stjórnanda Frystiklefans á Rifi.

Þau spjölluðu saman um Frystiklefann, lífið og listina á Snæfellsnesi. Kári stofnaði Frystiklefinn á Rifi árið 2010 en Frystiklefinn er leikhús, samfélags- og menningarmiðstöð, listamannaaðsetur og farfuglaheimili þar sem haldnir eru menningar- og sögutengdir viðburðir allt árið. Frystiklefinn fékk Eyrarrósina árið 2015 fyrir að vera framúrskarandi menningarverkefni í landsbyggðunum.

"Þetta er allt leiksýningunum að þakka að húsið þróaðist og hugmyndirnar fór að breiða úr sér. Urðu stærri og öðruvísi og fóru út í aðrar listgreinar. Þegar ég byrjaði að gera leikhús hérna þá var þetta bara frystihús. Þá byrjaði ég á að breyta einu rými í leikhús. Svo gekk sú sýning mjög vel og þá ákvað ég að gera aðra sýningu og þá langaði mig að vera í öðru rými. Þá breytti ég því rými í leikhús. Svo fór ég að hugsa að það þyrfti kannski að vera bar til að taka á móti fólki, smá móttöku eða þannig. Svo héldum við listahátíð, Æringur hét hún, sem var alþjóðleg listahátíð og þá var fólk að vinna í öllum rýmunum og öllum herbergjum að skapa. Þannig að þetta er listin sem kveikir þessa hugmynd hjá mér að þróa allt húsið og gera allt húsið að „funktional“ skapandi listrænni upplifun.“

Kári hvatti alla til að heimsækja Snæfellsnes í sumar og koma við í Frystiklefanum.