Við höldum áfram að ræða velgengni og nú með áherslu á vini og velgengni.
Hefurðu pælt í því hvort að þinn nánasti vinahópur gleðjist með þér þegar þér vegnar vel? Eða reyna þeir að draga úr þér? Ég hef persónulega upplifað að vinkona réði ekki við þegar mér fór að vegna vel aftur.
Í stað þess að upplifa öfund þegar öðrum gengur betur en þér, hvað með að snúa því við og skoða hvað það sé sem þig langar í sem viðkomandi hefur? Af því þegar við öfundum aðra er það af því okkur langar í eitthvað sem þeir hafa. En í stað þess að fara í baktal og niðurrif, hvernig væri heldur að nýta tilfinninguna öfund sem áttavita að því sem þig langar í og þá velgengni sem þú þráir? Og leita heldur ráða hjá viðkomandi í stað þess að fara í öfund og baktal.
Talað er um að við verðum samtalan af þeim fimm sem við erum í mestu samskiptum við. Þess vegna skiptir svo miklu máli að velja vini sína og þá sem maður umgengst, af kostgæfni.
Ég kaus að trúa því fyrir löngu síðan að „konur eru konum bestar" og það er hugsun sem ég hef trúað í gegnum lífið. Mér finnst virkilega gaman að fylgjast með konum sem vegnar vel, ég læt það ekki þýða að þá geti mér ekki vegnað vel. Þvert á móti þá fyllist ég eldmóði að fylgjast með konum sem eru að gera frábæra hluti. Það er til nóg handa öllum og ég vil læra af þeim konum sem vegnar betur en mér sjálfri. Við Dögg lífsþjálfi í LMLP ræðum þetta spennandi efni í þessum þætti.