Gríðarleg aukning á kannabisrannsóknum
Mikil og stöðug aukning á vísindarannsóknum hefur varpað nýju ljósi á möguleika kannabisplöntunnar í læknavísindum og virðist ekkert lát á. Þetta sagði tékkneski efnafræðingurinn Lumír Hanuš í viðtali við Hampkastið, umræðuþátt Hampfélagsins, en hann hélt erindi á alþjóðlegri ráðstefnu sem félagið stóð fyrir um miðjan október síðastliðinn. Rannsóknir Hanuš frá því fyrir miðja síðustu öld mótuðu skilning vísindamanna á kannabisplöntunni og læknisfræðilegum notum hennar en eftir langvarandi bann og fordóma hefur áhugi á kannabisfræðum aukist gríðarlega á umliðnum árum.