Ísland er Eden fyrir kannabisræktun
„Með okkar ódýru orku, góða vatn, kalda veðrið og lítinn raka höfum við fullkomna blöndu til að verða stórþjóð í kannabisræktun innanhúss. Við þurfum bara kjarkinn í það,‟ segir Sigurður Jóhannsson, formaður Hampfélagsins. „Það er mikill áhugi á Íslandi erlendis frá og margir að skoða möguleikann á að setja upp vinnslustöðvar hér á landi.” Sigurður var gestur í nýjasta þætti Hampkastsins þar sem hann kynnti alþjóðlega ráðstefnu Hampfélagsins sem haldin verður 11.-12. október næstkomandi í Salnum í Kópavogi. Ráðstefnan ber heitið Hampur fyrir framtíðina og flytja þar erindi heimsþekktir sérfræðingar úr greininni.
Sigurður segist trúa því að ráðstefnan komi til með að opna augu fólks um þá möguleika sem í hampinum felast og að hún sé frábært tækifæri fyrir áhugasama að efla tengslanet sitt í greininni. „Það er ótrúlegur áhugi á henni erlendis og fólk er að koma hingað hvaðanæva úr heiminum. Við erum með fyrirlesara á heimsmælikvarða og erum að fá að heyra eitthvað nýtt. Við erum að fá að heyra allar hliðar máls því það eru ekki eingöngu möguleikar fyrir bændur að nýta þessa plöntu heldur alls konar fyrirtækið sem standa í iðnaði. Við erum með fyrirtæki eins og Marel sem er að gera færibönd fyrir alls konar framleiðslu. Það er fyrirtæki sem gæti auðveldlega aðlagað sig að þessari grein og komið sterkir inn á markaðinn.”
https://hemp4future.is/