Í fyrsta þætti af Íþróttarabbi HR á Spotify er rætt við Clive Brewer sem er einn þeirra erlendu sérfræðinga sem kemur reglulega hingað til lands að kenna nemendum meistaranáms íþróttafræðinnar í HR. Sérsvið Clive er styrk- og þrekþjálfun og afreksþjálfun. Hann hefur víðtæka reynslu af líkamlegri þjálfun íþróttafólks allt frá börnum til Ólympíufara. Clive hefur skrifað hagnýtar kennslubækur fyrir þjálfara í styrk- og þrekþjálfun með æfingum og góðum ráðum. Undanfarin ár hefur hann mest starfað í Bandaríkjunum í tengslum við hafnabolta og fótbolta, en nú síðast sem stjórnandi afreksíþróttamiðstöðvar Ortho Arizona. Áður hafði hann unnið á Bretlandseyjum með stórum knattspyrnuliðum í úrvalsdeildinni, rúgbýliðum, sérsamböndum og fagfélögum.
Íþróttarabb HR er ný þáttasyrpa innan HR hlaðvarpsins. Það er íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík sem heldur syrpunni úti. Í þáttunum er spjallað um hreyfingu, íþróttir, keppni, kennslu og þjálfun við gesti og gangandi í faginu. Viðmælendur koma víða að; sérfræðingar og fræðifólk, kennarar og gestafyrirlesarar, núverandi og fyrrverandi nemendur. Íþróttaiðkendur, afreksfólk og þjálfarar munu sömuleiðis koma við sögu.
Það er Sveinn Þorgeirsson, kennari við íþróttafræðideild HR, sem ræðir við Clive. Sérsvið Sveins er íþróttaþjálfun og nánar tiltekið þjálffræði, afreksþjálfun og handknattleikur.
Nám í íþróttafræði við HR er fjölbreytt og krefjandi og undirbýr nemendur fyrir störf á fjölmörgum sviðum íþrótta, líkams- og heilsuræktar er lúta að kennslu, þjálfun og stjórnun. Í grunnnámi í íþróttafræði kynnast nemendur undirstöðuatriðum í þjálfun og kennslu og ljúka einingum í verknámi. Þeir kynnast því jafnframt hvernig nota má niðurstöður rannsókna og nýjustu tækni til að efla þjálfun, afreksíþróttir og heilsu almennings. Í meistaranáminu er lögð áhersla á rannsóknir og tengsl við samfélag og atvinnulíf.
HR hlaðvarpið er aðgengilegt á helstu samfélagsmiðlum háskólans og streymisveitunum Spotify og Apple iTunes, ásamt hlaðvarpsveitum á borð við Simplecast, Pocket Casts og Podcast Addict. Það er samskiptasvið HR sem er umsjónaraðili hlaðvarpsins (samskipti@ru.is). Framleiðendur HR hlaðvarpsins eru þeir Skúli Andrésson og Vilhjálmur Siggeirsson.