Listen

Description

Í þessum þætti af Íþróttarabbinu er rætt við Þóri Hergeirsson, þjálfara norska kvennalandsliðsins í handbolta. Gestaspyrill í þessum þætti er íþróttafréttakonan Edda Sif Pálsdóttir. Þórir hefur þjálfað norska kvennalandsliðið sem aðalþjálfari frá árinu 2009. Árangur hans með liðið hefur verið afar eftirtektarverður; níu sigrar á stórmótum og samtals fjórtán skipti á palli á þessum fjórtán árum. Í janúar var Þórir kosinn þjálfari ársins í Noregi á Idrettsgallaen, uppgjörshátíð norskra íþrótta. Þar að auki hefur hann verið sæmdur konunglegri riddaraorðu í Noregi fyrir framlag sitt til handboltans þar í landi. Þórir er borinn og barnfæddur Selfyssingur og byrjaði ungur að stunda handbolta með Selfossi. Árið 1986 flutti hann til Oslóar og fór fljótlega að einbeita sér einvörðungu að þjálfun.

Íþróttarabb HR er þáttasyrpa innan HR hlaðvarpsins. Það er íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík sem heldur syrpunni úti. Í þáttunum er spjallað um hreyfingu, íþróttir, keppni, kennslu og þjálfun við gesti og gangandi í faginu. Viðmælendur koma víða að; sérfræðingar og fræðifólk, kennarar og gestafyrirlesarar, núverandi og fyrrverandi nemendur. Íþróttaiðkendur, afreksfólk og þjálfarar munu sömuleiðis koma við sögu.

Nám í íþróttafræði við HR er fjölbreytt og krefjandi og undirbýr nemendur fyrir störf á fjölmörgum sviðum íþrótta, líkams- og heilsuræktar er lúta að kennslu, þjálfun og stjórnun. Í grunnnámi í íþróttafræði kynnast nemendur undirstöðuatriðum í þjálfun og kennslu og ljúka einingum í verknámi. Þeir kynnast því jafnframt hvernig nota má niðurstöður rannsókna og nýjustu tækni til að efla þjálfun, afreksíþróttir og heilsu almennings. Í meistaranáminu er lögð áhersla á rannsóknir og tengsl við samfélag og atvinnulíf.

HR hlaðvarpið er aðgengilegt á helstu samfélagsmiðlum háskólans og streymisveitunum Spotify og Apple iTunes, ásamt hlaðvarpsveitum á borð við Simplecast, Pocket Casts og Podcast Addict. Það er samskiptateymi HR sem hefur umsjón með HR hlaðvarpinu (samskipti@ru.is). Framleiðendur hlaðvarpsins eru þeir Skúli Andrésson og Vilhjálmur Siggeirsson.