Listen

Description

Fyrsti gestur Sprotasólarinnar er Mathieu G. Skúlason, framkvæmdastjóri sprotafyrirtækisins Evolytes. Evolytes var stofnað árið 2017 en fyrirtækið varð til við þverfaglegar rannsóknir í sálfræði og tölvunarfræði í hugbúnaðarkerfinu Aperio við Háskólann í Reykjavík. Hlutverk fyrirtækisins er að umbylta stærðfræðinámi með skemmtanavæddu, gagnadrifnu og einstaklingsmiðuðu námskerfi sem byggir á leiðandi kenningum og rannsóknum í sálfræði, menntavísindum og tölvunarfræði til að hámarka árangur nemenda í stærðfræði.

Sprotasólin er nýjasta þáttasyrpan innan HR hlaðvarpsins. Í þáttunum verður rætt við fulltrúa sprotafyrirtækja sem eiga rætur í HR, en alls voru yfir sextíu nýsköpunarfyrirtæki sett undir sprotasólina vorið 2022. Flest þeirra spretta upp úr lokaverkefnum nemenda og/eða rannsóknum starfsfólks. Það er einmitt í takti við þá stefnu skólans að vera leiðandi í rannsóknum, samhliða því að vera öflugur nýsköpunarháskóli.

Þáttastjórnendur Sprotasólarinnar eru Lilja Björk Hauksdóttir og María Ólafsdóttir.

HR hlaðvarpið er aðgengilegt á helstu samfélagsmiðlum háskólans og streymisveitunum Spotify og Apple iTunes, ásamt hlaðvarpsveitum á borð við Simplecast, Pocket Casts og Podcast Addict. Það er samskiptasvið HR sem er umsjónaraðili hlaðvarpsins (samskipti@hr.is). Framleiðendur eru þeir Skúli Andrésson og Vilhjálmur Siggeirsson.