Í gær 18.október var alþjóðlegur dagur breytingaskeiðsins og af því tilefni ætlum við að beina sjónum okkar að þessu tímabili sem allar konur ganga í gegnum. Breytingaskeiðið reynist sumum konum erfitt á meðan aðrar finna minna fyrir því en einkennin eru mjög breytileg frá konu til konu. Alþjóðlegu breytingaskeiðasamtökin IMS ákváðu að yfirskrift gærdagsins skyldi vera hjarta og æðasjúkdómar og er það gert til að vekja athygli og upplýsa almenning og heilbrigðisstarfsfólk um orsakir og áhrif hjarta og æðasjúkdóma á konur. Sonja Bergmann sérfræðingur hjá Gynamedica kemur til okkar á eftir og ræðir þessi mál við okkur en einnig ætlum við að ræða við hana um hvaða áhrif breytingskeiðið hefur á sambönd og kynlíf
Fjóla Signý Hannesdóttir rófubóndi mætir til okkar beint af býli. Tilefnið er ærið því það styttist í hrekkjavökuna sem þjóðin hefur tekið fagnandi. Á þessum tíma árs sjást innflutt grasker í stórmörkuðum og seljast iðulega upp. Fjóla leggur til að íslenska rófan taki við því hún er ekkert ein um það að skera út hrekkjavöku rófu. Meira um það á eftir.
Sigurjón Sighvatsson situr aldrei auðum höndum og nú ætlar hann að kíkja til okkar á eftir og segja okkur frá nýjasta hugarfóstri sínu sem er ferðaþjónusta byggð á sýndarveruleika upplifun.
Ef hlustendur voru ekki búin að átta sig á því þá er fimmtudagur, það þýðir að Atli Fannar Bjarkason mætir með meme-ið sitt. Við erum að tala um meme vikunnar.
Ragnhildur Sverrisdóttir, Hildur Heimisdóttir og Selma Kristín Erlendsdóttir í Ukulellum, hljómsveit skipuðum hinsegin konum koma til okkar á eftir. Ukulellurnar eru að fara að halda tónleika í lok mánaðarins og þær ætla að segja okkur betur frá því og svo mörgu öðru.
Í morgun bárust fréttir af því að tugir lögreglumanna hefði særst í Berlín í nótt eftir að hafa verið kallaðir út á samstöðufund með Palestínumönnum þar sem loftárásum Ísraels á Gasa var mótmælt. Á línunni hjá okkur er Davíð Magnússon en hann hefur verið búsettur í Berlín um árabili.