Listen

Description

Við ætlum að kynna okkur nýjustu vendingar í Bankastræti Club málinu en aðalmeðferð málsins hefur haldið áfram í dag í veislusalnum í Gullhömrum í Grafarholti. Saksóknari krefst þess að maðurinn sem grunaður er um að hafa stungið þrjá inni á skemmtistaðnum Bankastræti Club verði dæmdur til minnst átta ára fangelsisvistar. Haukur Hólm fréttamaður segir okkur frá gangi mála hér á eftir.
Gjaldskyldutími í bílastæði miðsvæðis í Reykjavík lengdist í gær 1.október og nú þarf að borga meira á ákveðnum stöðum. Í fyrsta sinn þarf að greiða í stæði á sunnudögum og til klukkan 9 á kvöldin. Verslunareigendur Kjötborgar er afar ósáttir við þessar breytingar og við ætlum að heyra öðrum verslunareigandanum honum Gunnari Jónassyni hér á eftir.
Í dag kom inn á streymisveituna Storytel fyrsti þátturinn af heimildarþáttaröð sem ber yfirskriftina Réttarmorð. Þar fjallar Sigursteinn Másson ítarlega um Guðmundar og Geirfinnsmálið í sex þáttum sem verða síðan birtir vikulega á Storytel. Sigursteinn kemur til okkar á eftir og segir okkur betur frá.
Við ætlum að heyra af námskeiði sem kallast Endurheimt eftir meðgöngu og fæðingu þar sem lögð er áhersla á uppbyggingu á líkama og sál með áherslu á sjálfsmildi. Þær koma til okkar Indíana Rós Ægisdóttir kynfræðingur og Elín Ásbjarnardóttir Strandberg jógakennari og segja frá.
Jakob Eggertsson barþjónn hefur undanfarna daga dvalið í Saó Paulo í Brasilíu en þar fór fram lokaviðureign í heimsmeistarakeppni barþjóna World Class og þar mætti Jakob bestu barþjónum heims. World Class keppnin snýst ekki um einn drykk heldur verða margar áskoranir þar sem dæmt er eftir mörgum þáttum.Það er skemmst frá því að segja að Jakobi gekk vel og er kominn í hóp 12 þeirra bestu og við hringjum í hann og heyrum í honum í þættinum.
Tvær sprengjur voru sprengdar í íbúðahverfum í og við Stokkhólm árla morguns. Enginn mun hafa slasast alvarlega í árásunum, sem báðar eru taldar tengjast yfirstandandi átökum í undirheimum Svíþjóðar, en miklar skemmdir urðu á húsum. Á línunni hjá okkur er Jóhann Ingi Sigurðsson en hann hefur verið búsettur í Stokkhólmi síðastliðin 13 ár.