Vika hjúkrunar er haldin árlega á Landspítala kringum 12. maí, fæðingardag Florence Nightingale (1820) og alþjóðlegan dag hjúkrunarfræðinga. Að þessu sinni var hún haldin 11.-15. maí. Í tilefni af Viku hjúkrunar ræstum við hlaðvarpssyrpuna "Brautryðjendur í hjúkrun" og annar viðmælandinn þar er Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala. Gestastjórnandi er hjúkrunarfræðingurinn Marta Jónsdóttir, sem er formaður hjúkrunarráðs Landspítala. Sigríður segir í hlaðvarpinu frá sjálfri sér, starfsferlinum og verkefnum sínum í dag.
Sigríður Gunnarsdóttir er fædd árið 1969. Hún lauk BS-prófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 1997, klínísku meistaraprófi í krabbameinshjúkrun frá University of Wisconsin-Madison árið 2000 og doktorsprófi frá sama skóla árið 2004. Sigríður hefur verið framkvæmdastjóri hjúkrunar frá árinu 2012 og stýrir skrifstofu hjúkrunar og lækninga, ásamt Ólafi Baldurssyni, framkvæmdastjóra lækninga. Skrifstofan gegnir forystuhlutverki á Landspítala í vísindum, menntun og gæðamálum.
Sigríður er prófessor í krabbameinshjúkrun við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Hún var áður lektor og síðar dósent við Háskóla Íslands auk þess að gegna starfi forstöðumanns fræðasviðs í krabbameinshjúkrun við Háskóla Íslands og Landspítala.
Stjórnandi Hlaðvarps Landspítala er Stefán Hrafn Hagalín, en upptöku annast Ásvaldur Kristjánsson. Báðir starfa hjá samskiptadeild Landspítala. Hlaðvarp Landspítala er aðgengilegt á vef spítalans og helstu samfélagsmiðlum, en einnig í streymisveitunum Spotify og Apple iTunes, ásamt hlaðvarpsveitum á borð við Simplecast, Pocket Casts og Podcast Addict.