Leifur Magnússon segir hér frá þeim merkilega tíma þegar hann starfaði við hlið Agnars Kofoed-Hansen þá flugmálastjóra Íslands á sjöunda og áttunda áratugnum og barist var fyrir hagsmunum Íslands á alþjóðlegum vettvangi. Leifur starfaði við flugið með einum eða öðrum hætti um áratuga skeið og var árið 1979 heiðraður með riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf á sviði flugmála. Auk þess að vera einkaflugmaður og afreksmaður í svifflugi þá leiddi Leifur þróun flugflota Flugleiða þegar sú stóra ákvörðun var tekin að byrja með tveggja hreyfla þotur í áætlunarflugi til og frá Íslandi. Um ágæti þess var deilt á sínum tíma og á níunda áratugnum var jafnvel umræða um að hætta alfarið flugi til Ameríku.