Helgi Áss Grétarsson stórmeistari og fyrsti varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík var gestur Kristjáns Arnar Elíassonar að þessu sinni. Margt hefur drifið á daga íslenskra skákmanna að undanförnu og margt spennandi er á dagskrá næstu vikurnar sem þeir Helgi og Kristján Örn fóru yfir í þættinum.
Má þar nefna að í dag hefði Hrafn Jökulsson rithöfundur, blaðamaður og skákfrömuður orðið 58 ára gamall en hann lést á síðasta ári. Vinaskákfélagið heldur glæsilegt hraðskákmót að Aflagranda 40 í Reykjavík síðar í dag til minningar um Hrafn og hafa flestir af sterkustu skákmönnum þjóðarinnar sem eru á landinu boðað þátttöku sína. Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, mun leika fyrsta leikinn fyrir Hjörvar Stein Grétarsson stórmeistara á efsta borði.
Helgi sagði frá athyglisverðri og stórskemmtilegri grein sem hann skrifaði í síðasta tölublað Tímaritsins Skák sem hann kallar "5 ára planið" með undirfyrirsögninni "Reynslusaga miðaldra stórmeistara af endurkomu í skákheiminn". Í lok greinarinnar segir hann að aðalatriðið sé að vinna í að bæta ákvarðanir sínar og finna leiðir til að skapa erfiðleika fyrir andstæðinginn, að taka skynsamlegar ákvarðanir. Á þann hátt sé líklegast að maður hámarki árangur sinn á hverjum tíma.
Annað sem þeir félagar ræddu var staðan á Íslandsmóti skákfélaga 2023-2024 sem nú er hálfnað, frábæran árangur Birkis Hallmundarsonar á HM í flokki 10 ára barna og yngri, nýlokinni sterkri mótaröð Bistro-banka í Mosfellsbæ þar sem peningaverðlaun voru ein milljón króna á glæsilegu lokamóti, Uppsala unglingamótið, Hannes Hlífar á HM 50 ára og eldri, Ofurmótið á eyjunni Mön, EM landsliða sem er fram undan og margt fleira áhugavert og skemmtilegt.