Gunnar Kristinn Gunnarsson er gestur þáttarins að þessu sinni. Gunnar er fyrrverandi útibússtjóri Útvegsbankans í Hafnarfirði og var hann liðsmaður í sigursælli sveit bankans í hinni vinsælu skákkeppni stofnanna. Hann var forseti Skáksambands Íslands á árunum 1974-1975 og 1982-1984. Gunnar hefur þá sérstöðu meðal íslenskra skákmanna að vera eini Íslandsmeistarinn í skák (1966) sem einnig hefur unnið Íslandsmeistaratitil í annarri grein en hann varð Íslandsmeistari í knattspyrnu með meistaraflokki Vals (1956). Gunnar lék nokkra landsleiki með landsliði Íslands í knattspyrnu. Með sigri á Skákþingi Íslands 1966 tryggði hann sér sæti í sterku ólympíuliði Íslands sem tefldi á Ólympíumótinu í Havana á Kúbu sama ár. Gunnar verður 91 árs gamall þann 14. júní 2024 og heldur hann sér enn við á skáksviðinu með áskrift á tímaritinu New In Chess, stúderingum og með því að tefla vikulega með ÆSI, skákklúbbi eldri borgara í Stangarhyl.