Landsliðsmennirnir Vignir Vatnar Stefánsson, núverandi Íslandsmeistari í kappskák og hraðskák og Hilmir Freyr Heimisson, alþjóðlegur meistari og núverandi Íslandsmeistari í atskák kíktu aðra vikuna í röð í heimsókn á Útvarp Sögu til Kristjáns Arnar Elíassonar í vikulegan þátt hans Við skákborðið. Þeir félagarnir tóku upp þráðinn frá því sem frá var horfið í síðasta þætti og ræddu meðal annars mikla og góða samvinnu þeirra við stúderingar en einnig innbyrðis "stríð" þeirra við skákborðið. Það kom fram í máli þeirra að þeir þekktu hvorn annan svo vel að skákir þeirra væru farnar að þróast í eins konar jafnteflismaraþon þeirra á milli, þeir væru í raun bestu óvinir! Langar skákir, tvöfaldar umferðir í svokölluðum túrbómótum og þreyta kom til tals og hversu mikilvægt það væri að sofa vel, borða rétt og stunda líkamsrækt reglulega. Þeir segja að það sé mjög gaman að sjá, að það sé kominn svo mikill metnaður hjá ungu skákmönnunum í dag. Þessi metnaður hafi ekki verið til staðar fyrir nokkrum árum þegar þeir voru að alast upp en nú séu flest allir að stúdera margar klukkustundir á dag. Menn séu einbeittir, haldi sér við efnið, taki alvöru æfingarnar og engin tími gefist fyrir fíflalæti. Vignir og Heimir fóru yfir helstu mót sem þeir ætla að taka þátt í á árinu og markmið sem þeir hafa sett sér á næstu tveimur árum. Vignir sagði að hann hefði rætt við hinn umdeilda og nú heimsþekkta Hans Moke Niemann í vikunni og að Niemann væri að velta fyrir sér að taka þátt í Reykjavíkurskákmótinu sem hefst í Hörpu í næsta mánuði.