Í fréttum er þetta helst
Það stefnir í þriggja til fjögurra milljarða niðurskurð á Landspítala, sem er að miklu leyti til kominn vegna kjarasamninga lækna sem spítalinn segir vanfjármagnaða. Þá gerir fjárlagafrumvarpið ekki ráð fyrir rekstri stækkunar bráðamóttökunnar.
Sextán voru drepnir í skotárásinni á Bondi-ströndinni í útjaðri Sydney í Ástralíu í dag, þar á meðal eitt barn. Í það minnsta 4 börn særðust í árásinni en alls liggja 40 særðir inni á spítala. Þetta segir ástralska lögreglan.
Íslenskur nemandi við Brown-háskóla hefði mætt í kennslustund í kvöld í sömu skólastofu og mannskæð skotárás var framin í gær, en hún sækir flesta sína tíma í umræddri stofu. Öll kennsla og lokapróf hafa nú verið felld niður vegna árásarinnar. Hún segir samfélagið í Providence í áfalli og lýsir flótta vinar síns af háskólasvæðinu eftir að hafa heyrt skothvelli frá stofunni.
Leikstjórinn Rob Reiner fannst látinn á heimili sínu í Los Angeles ásamt eiginkonu sinni. Talið er að þau hafi verið myrt.
Vilji kjósenda í Dalabyggð og Húnaþingi vestra var afdráttarlaus, þegar þeir höfnuðu sameiningu sveitarfélaganna, segja sveitarstjórar sveitarfélaganna. Viðræður um sameiningu hafa staðið frá síðasta kjörtímabili og íbúakosningum, sem hófust í lok nóvember, lauk í gær. Kjörsókn var 60% í Dalabyggð og tæplega 62% í Húnaþingi vestra.
Úthlutun Matargjafa Akureyrar og nágrennis og NorðurHjálpar byrjar á morgun og stendur í viku. Sigrún Steinarsdóttir, framkvæmdastýra Matargjafar Akureyrar, segir fjölgun beiðna. Sorglegt sé að sjá fjölgun lífeyrisþega meðal þeirra sem þiggja aðstoð.
Ekkert er því til fyrirstöðu að Ísland taki þátt í sameiginlegum drónakaupum hinna Norðurlandanna sé vilji til þess. Utanríkisráðuneytið fylgist með framvindu kaupanna.
Takk fyrir í dag, sjáumst á morgun.