Í fréttum er þetta helst
Íslensku konurnar sem að létust í alvarlegu umferðaslysi í Suður Afríku á miðvikudag voru systir og föðuramma drengs sem staddur er í meðferð á meðferðarheimilinu Healing Wings. Faðir hans liggur þungt haldinn á sjúkrahúsi í Jóhannesarborg.
Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, segir þjóðveginum og innviðum sveitarfélagsins stafa veruleg ógn af miklum sjógangi við Vík í Mýrdal. Verði ekki brugðist við haldi landrof áfram og fjara færist nær þjóðveginum.
Starfsmaður Útlendingastofnunar er sagður hafa deilt nöfnum skjólstæðinga sinna með fólki á Instagram. Það er brot á þagnarskyldu umrædds starfsmanns og er talið alvarlegt brot gegn skyldum embættismanna.
Heilbrigðisráðherra segir vistun sjúklinga í bílakjallara örþrifaráð sem eigi ekki að þurfa að grípa til. Unnið sé að því að setja á laggirnar viðbragðsteymi ef bráðamóttaka Landspítala verður yfirfull.
Eldsneytisverð hjá olíufélögunum lækkar um áramót en óvíst er hve mikið. FÍB segir lækkunina eiga að vera áttatíu til níutíu krónur á lítrann. Framkvæmdastjóri Orkunnar segir að líta beri á fleiri breytur en olíugjald við útreikning.
Þrír erlendir ríkisborgarar munu þurfa að dúsa í gæsluvarðhaldi fram yfir áramót þar sem lögregla grunar þá um hafa komið hingað til lands til að fremja auðgunarbrot og hafa háar fjárhæðir af öldruðu fólki.
Það þarf ofsaveður til að heimilislausir á höfuðborgarsvæðinu geti leitað skjóls á öllum tímum dags eftir að þjónusta skertist vegna húsnæðisvanda. Rauði krossinn segir áhrifin geta orðið margvísleg.
Takk fyrir í dag, sjáumst á morgun.