Listen

Description

Í fréttum er þetta helst
Verðbólga mælist nú 4,5 prósent, miðað við 3,7 prósent í nóvember.
Veðurviðvaranir munu einkenna jólahátíðina í flestum landshlutum og munu þær fyrstu taka gildi eftir hádegi á morgun á Breiðafirði og Vestfjörðum. Í kjölfarið dreifast þær yfir landið og ná hámæli á aðfangadag. Hiti getur hæst náð átján stigum, að sögn Veðurstofunnar.
Hæstiréttur hefur sýknað Landsbankann af öllum kröfum í tveimur málum sem neytendur höfðuðu á hendur bankanum vegna tiltekinna skilmála í lánasamningum. Hæstiréttur taldi skilmálana ólögmæta en að neytendur hefðu ekki orðið fyrir tjóni.
Fjölskylda drengs sem er í fíknimeðferð í Suður-Afríku var nýkomin þangað til að vera með honum yfir jólin, þegar ógæfan reið yfir og hún lenti í bílslysi. Amma drengsins og þrettán ára systir hans létu lífið. Vinkona móður barnanna segir síðustu daga hafa verið óraunverulega.
Breskt félag hefur stefnt Samherja fyrir hönd ríkisfyrirtækis í Namibíu um hundrað og fjörutíu milljarða íslenskra króna og verður dæmt í málinu í Bretlandi. Forstjóri fyrirtækisins segir að þegar hafi verið gripið til varnar í Bretlandi. Upphæðin sé súrealísk og hærri en eigið fé Samherja.
Óbyggðanefnd hefur úrskurðað að úteyjar og sker í kringum Vestmannaeyjar, að Surtsey frátaldri, tilheyri í raun Vestmannaeyjabæ. Bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar segir úrskurðinn fullnaðarsigur í stórskrýtnu máli.
Ákveðið hefur verið að sameina Farice ehf., Öryggisfjarskipti ehf. og tæknihluta Neyðarlínunnar ohf. Félögin þrjú sem öll eru í eigu ríkisins, sinna hvert um sig lykilhlutverkum í rekstri alþjóðlegra og innlendra fjarskipta, neyðarsamskipta, öryggiskerfa og þjónustu við almenning, viðbragðsaðila og viðskiptavini.

Takk fyrir í dag, sjáumst á morgun.