Listen

Description

Í fréttum er þetta helst
Merki um kreppuverðbólgu og mikilvægt að bregðast við. Atvinnuleysi hefur ekki mælst meira í rúm fjögur ár. Yfir fimmtán þúsund voru atvinnulausir í nóvember samkvæmt tölum Hagstofunnar. Formaður VR segir að vandinn sé heimatilbúinn og stjórnvöld verði að bregðast við.

Áfram auknar líkur á eldgosi. Kvikusöfnun undir Svartsengi er hæg en stöðug, líkt og hún hefur verið síðustu vikurnar. Í tilkynningu frá Veðurstofunni kemur fram að á meðan kvikusöfnun haldi áfram þurfi að reikna með nýju eldgosi, , en óvissa um tímasetningu á næsta eldgosi er meiri þegar kvikusöfnun er hæg. Hættumat helst óbreytt til 6. janúar, nema breytingar verði á virkninni.

Minni rekstrarkostnaður fyrir eigendur bensínháka. Eigendur ökutækja þurfa að greiða tugþúsundir í kílómetragjald árlega frá áramótum en lög um gjaldið voru samþykkt á Alþingi fyrir helgi. Verð á eldsneyti mun hins vegar lækka umtalsvert vegna niðurfellingar gjalda en misjafnt er hvort álögur á eigendur ökutækja aukist eða minnki.

Ekkert því til fyrirstöðu að Ásthildur Lóa verði aftur ráðherra. Flokkur fólksins þarf að leysa ráðherramál sín hratt og örugglega sé raunveruleg óvissa fyrir hendi um hverjir muni gegna ráðherraembætti til framtíðar. Þetta segir stjórnmálafræðingur sem telur ekkert því til fyrirstöðu að Ásthildur Lóa Þórsdóttir snúi aftur sem ráðherra.

Íslendingur í gæsluvarðhaldi í Kólumbíu vegna gruns um kynferðisbrot. Íslenskur karlmaður á fertugsaldri hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald í Medellín í Kólumbíu, grunaður um kynferðisbrot gegn 16 ára gamalli stúlku. Meint brot átti sér stað aðfaranótt 6. desember síðastliðinn.

Líklegt þykir að öllu innanlandsflugi Icelandair verði aflýst á morgun vegna veðurs. Icelandair aflýsti síðustu flugferð sinni til Akureyrar í kvöld af sömu ástæðum. Guðni Sigurðsson upplýsingsfulltrúi Icelandair segir veðurspá slæma fyrir morgundaginn og því líklegt að eins fari þá.

Hafnar „jólakveðju“ ríkisins. Fyrrverandi bankamanninum Steinþóri Gunnarssyni hafa verið boðnar fjórar milljónir króna í skaðabætur fyrir að hafa verið ranglega sakfelldur í Ímon-málinu svokallaða. Hann segist ekki ætla samþykkja boðið og ætlar að höfða mál gegn ríkinu.

Takk fyrir í dag, sjáumst á morgun.