Flugvellir eru táknrænn staður á svo margan hátt, undarlegt neysludrifið millibilsástand. Þar er samfélag manna strípað niður í grunneiningar ferðalags, komur og brottfarir og á milli er biðin og neyslan. Við komum, neytum, förum. Ad infinitum. En þar má alltaf finna bókabúð. Flugvallabækur eru sérstök tegund af bókmenntum og oft notað sem níðyrði. Sjöfn Asare bókmenntafræðingur og rithöfundur ræðir fyrirbærið flugvallabækur sem má rekja allt aftur til brautarstöðvareyfara á 19. öld.
En ferðalangar sem lesa Johann Wolfgang von Goethe á flugvelli eða á almannafæri yfir höfuð yrðu líklegast sakaðir um sviðsettan lestur, performative reading, hvaða skilaboð sendir bókin sem þú lest í almannarýminu á okkar furðulegu símatímum?
Við förum til Frankfurt í Þýskalandi á heimaslóðir Goethe. Ugla útgáfa gaf út litla vasabók með tveimur stuttum sögum eftir Goethe með aðfararorðum og eftirmála eftir Jón Bjarna Atlason sem jafnframt þýddi aðra söguna, Nóvellu, en Kristján Árnason og Þórarinn Kristjánsson þýddu hina sem kallast Ævintýrið og kom upphaflega út 2001. Jón Bjarni kemur með okkur til Frankfurt hér á eftir og segir okkur betur frá þessari útgáfu og Goethe – hans erindi og vægi í bókmenntum dagsins í dag.
Umsjón: Jóhannes Ólafsson
Viðmælendur: Sjöfn Asare og Jón Bjarni Atlason.