Immanuel Kant skrifaði heimspekilegu drögin Fyrir eilífum friði árið 1795 og var viðbragð upplýsingarheimspekingsins við rósturtímum og stríðsátökum Evrópu undir lok 18. aldar. Fleiri samtímahugsuðir veltu fyrir sér stríði og friði, hvernig í ósköpunum er hægt að stilla til friðar ef það er hægt yfir höfuð, á hvaða forsendum er það gert og hvernig lítur sá heimur út? Verkið kom út í lok árs 2024 í Lærdómsritröð Hins íslenska bókmenntafélags í þýðingu Egils Arnarsonar með inngangi eftir Emmu Björgu Eyjólfsdóttur sem er gestur þáttarins.
Við fjöllum líka um örsagnasafnið Dagskammtar eftir Ragnheiði Guðbjargar Hrafnkelsdóttur. Sögurnar tengjast ákveðnum atvikum eða stöðum, sumar eru þankar eða vangaveltur eins og dagbókafærslur og allt hverfist þetta um hversdagsleikann og hvað það þarf stundum lítið til að brjóta hann upp og kveikja á fantasíunni eða minningum. Ráðlagður dagskammtur af örsögum og heimsókn til Ragnheiðar um miðbik þáttar.
Ástin fiskanna eftir Steinunni Sigurðardóttur kom fyrst út árið 1993 og var að koma út í endurútgáfu í ritröðinni Íslensk klassík hjá Forlaginu. Þetta er stutt bók, nóvella sem hefur haft mikil áhrif, við segjum stuttlega frá henni og heyrum brot úr eldri umræðum og viðtölum.
Viðmælendur: Emma Björg Eyjólfsdóttir og Ragnheiður Guðbjargar Hrafnkelsdóttir.
Umsjón: Jóhannes Ólafsson.